Það er margt hægt að gera til að minnka plastnotkun á baðherberginu. Sumar breytingar eru auðveldar, aðrar aðeins flóknari. Í raun er hægt að gera baðherbergið næstum alveg plastlaust ef viljinn er fyrir hendi.

 • Handsápur: Auðvelt er að skipta út handsápum í plastílátum fyrir sápustykki sem koma í pappírsumbúðum. Mikið úrval er til af flottum handsápum og fást þær víða.
 • Tannburstar: Hægt er að skipta út plasttannburstum fyrir tannbursta úr bambus. Margir framleiða nú og selja bambustannbursta. Heilsuhúsið, Heilsuhornið og Mistur selja t.d. bambustannbursta.
 • Tannkrem og önnur krem og sápur: Plastagnir er að finna í mörgum snyrtivörum. Forðumst snyrtivörur sem hafa polyethylene, nylon og polypropylene meðal innihaldsefna.
 • Tannstönglar: Notum tannstöngla úr við eða bambus í staðinn fyrir plasttannstöngla.
 • Svitalyktareyðir: Matarsódi virkar mjög vel sem svitalyktareyðir. Hægt er að bera matarsódan beint á húðina eða blanda honum út í olíur t.d. kókosolíu. Þá er auðveldara að bera hann á. Ýmsir hafa líka hafið framleiðslu á svitalyktareyði sem ekki er í plastumbúðum. Hægt er að fá svitalyktareyði í krukkum og einnig í pappírsumbúðum.
 • Tannþráður: Venjulegur tannþráður er úr plasti og er í plastumbúðum. Hægt er að skipta honum út fyrir tannþráð úr silki.
 • Hársápa og næring: Hægt er að kaupa hársápu í stykkjum eins og handsápur sem koma þá í pappírsumbúðum. Það eru viðbrigði að breyta úr venjulegum hársápum yfir í hársápustykki (e. shampoo bar). Það er um að gera að gefa því smá tíma því hárið venst nýju hársápunni vel. Svo eru til margar tegundir af hársápustykkjum sem hægt er að prófa. Sumir ganga svo langt að útbúa sér hársápu úr matarsóda og vatni og nota edikblöndu fyrir hárnæringu.
 • Augnlínupennar: Margar gerðir eru til af augnlínupennum sem ekki eru úr plasti. Þessa gömlu góðu sem má ydda er hægt að kaupa víða.
 • Hreinsiklútar: Hægt er að nota fjölnota klúta sem þú þværð aftur og aftur í staðinn fyrir einnota klúta sem koma í plastumbúðum.
 • Dömubindi og túrtappar: Það er plast bæði í dömubindum og túrtöppum. Margir hafa skipt út dömubindum og túrtöppum fyrir álfabikarinn. Álfabikarinn er umhverfisvænn, ódýr og einfaldur í notkun og hafa margir hrósað honum. Álfabikarinn notar þú aftur og aftur. Hann fæst í flestum apótekum á Íslandi.
 • Klósettpappír: Ef hægt er, kaupum klósettpappír í pappírsumbúðum. Sumir nota miklu meiri klósettpappír en tilefni er til, ef við spörum klósettpappírinn þá þurfum við sjaldnar að kaupa hann inn.
 • Rakvélar: Reynum að forðast einnota rakvélar. Fjölnota rakvél með skiptanlegum blöðum er fljót að borga sig.
 • Eru plastagnir í snyrtivörunni þinni?: Hægt er að fletta upp upplýsingum um plastagnir með Microbeads smáforritinu

Ertu með ábendingu? Taktu þátt í umræðuhópnum um Plastlausan september á Facebook eða sendu okkur tölvupóst.

Loka yfirliti